06 júní, 2012

Fólat

Fólat er B-vítamín sem er að finna aðallega í laufgrænu grænmeti og baunum, en einnig í hnetum og sumum tegundum ávaxta. Erfitt getur verið að uppfylla ráðleggingar á fólati,  sérstaklega fyrir konur á barneignaaldri því þeirra þörf er hærri en annarra fullorðinna. Þess vegna er mælt með að þær taki fólat í töfluformi, sérstaklega ef þær eru að huga að barneignum, en mikilvægt er að þær byrji á því áður en þær verða ófrískar. 

Í nýjustu Landskönnun á mataræði Íslendinga, kom í ljós að aðeins 9% kvenna náðu ráðleggingum fyrir fólat og um fjórðungur þeirra voru undir meðalþörf fyrir vítamínið þegar reiknaðar voru niðurstöður úr fæðunni einni. Þetta sýnir hversu erfitt það getur verið að fá nægjanlegt fólat úr matnum. Hjá Íslendingum kemur fólat að mestu leyti úr morgunkorni, en einnig úr grænmeti, brauði og ávöxtum. En nú nýlega breyttust reglur á sölu morgunkorna á Íslandi þannig að ekki er lengur leyfð sala á morgunkorni með viðbættum vítamínum og steinefnum. Svo að nú er jafnvel enn mikilvægara en áður að passa upp á fólat inntöku.

Ráðleggingar fyrir konur 18-45 ára eru 400 μg á dag (úr mat og fæðubót) af fólati en fyrir aðra fullorðna, 300 μg á dag. Ástæðurnar sem  liggja á bakvið þessar ráðleggingar fyrir almenning eru þær að lág neysla þess hefur verið tengd við vitglöp og að einhverju leyti við heilabilun. Hjá ófrískum konum er skortur á fólati meðal annars talinn valda lágri fæðingarþyngd og auknar líkur á skaða í miðtaugakerfi fóstursins, eins og til dæmis klofinn hryggur, heilaleysi og vatnshöfuð. Þessu er nánar sagt frá í fólat bæklingi frá Embætti Landlæknis. En það er eins með fólat eins og flest önnur vítamín, að það þarf að passa að taka ekki of stóra skammta.


Tengt efni