26 ágúst, 2012

Bláber

Nú er aldeilis tími bláberjanna og örugglega langflestir búnir að fara allavega einu sinni í berjamó. Ef ekki, þá er allavega góð hugmynd að huga að því þar sem við erum svo ótrúlega heppin hérna á Íslandi að hafa þennan möguleika og bláberin eru langt frá því að vera ódýr úti í búð.

En hvað er það við bláberin sem gerir þau svona eftirsóknarverð? Við höfum öll heyrt um að þau eru stútfull af andoxunarefnum vegna þess hversu rík þau eru af C- og E-vítamíni, og auðvitað eru ávextir og ber með því hollasta sem við borðum.

Það þarf aðeins 100 grömm af bláberjum til að uppfylla um 20% af ráðlögðum dagsskammti af E-vítamíni og yfir helming ráðlags dagsskammts af C-vítamíni. Bláberin innihalda líka B6- og K-vítamín.  Einnig eru bláberin mjög trefjarík, en í aðeins 100 grömmum erum við komin með 7% af ráðlögðum trefjaskammti fyrir daginn.

Rannsóknir benda til þess að bláber líkt og aðrir ávextir og ber sem eru rík af flavenóíðum, hafi þau áhrif að draga úr bólgumyndun og vissri tjáningu gena sem er tengd sjúkdómaferli sumra krabbameina og æðasjúkdóma. Þannig að neysla bláberja er svo sannarlega frekar til bóta þegar kemur að heilsunni.

Bláberin er svo hægt að frysta og eiga í vetur en einnig eru hérna nokkrar hugmyndir sem hægt er að nota bláberin í:
  • búa til bláberjamöffins
  • búa til bláberjapönnukökur
  • búa til bláberjaböku
  • búa til bláberjasultu
  • setja út á skyr, jógúrt eða ab mjólk
  • búa til bláberjabúst
  • setja út á hafragraut

Heimildir
  • Ráðleggingar um mataræði og næringarefni fyrir fullorðna og börn frá tveggja ára aldri. Lýðheilsustöð. Reykjavík (2006).
  • ÍSGEM (2011). Matís ohf.
  • Neto, C. C. (2007). Cranberry and blueberry: evidence for protective effects against cancer and vascular diseases. Mol Nutr Food Res, 51(6), 652-664.